Við hjónin, Gestur og Sigga, sem rekum saman R+ þekkjum hvort annað orðið ansi vel eftir tæplega 20 ára samband. Við gáfum okkur því það verkefni að skrifa kynningarteksta um hvort annað.

Sigríður Soffía Sigurjónsdóttir, doktor í atferlisfræði, með áherslu á endurgjöf á vinnustað. Sigríður Soffía fékk ung áhuga á sálfræði og hóf BA nám í sálfræði við Háskóla Íslands árið 2002, með það að markmiði að verða klíniskur sálfræðingur. Í náminu kynntist hún atferlisfræði sem hún heillaðist af og ákvað að breyta um stefnu og stefna heldur í átt að Atferlismiðaðri stjórnun.
Hún lauk BA námi því meðrannsókninni Frammistöðustjórnun í smásölu: Notkun jákvæðra styrkja, markmiðasetningar og endurgjafar til að bæta þjónustu og auka söluhegðun.Eftir það lá leiðin til Noregs í meistaranám í Learning in complex systems við OsloMet háskóla. Lokaverkefni hennar þar var The effects of performance management on behavior, outcomes and mindset in applied settings. I framhaldi hélt Sigríður í doktorsnám og varð doktor í Atferlisfræði – með áherslu á endurgjöf á vinnustað, 2022.
Eins og sést hér að ofan er það Atferlismiðuð stjórnun sem hefur alveg frá grunnnámi í sálfræði átt hug hennar allan. Það eru þó ekki bara fræðin sjálf sem hún brennur fyrir heldur einnig að fá að miðla þeim til annara. Hún hefur fengist við kennslu meðfram námi frá því í grunnnáminu í HÍ, þar sem hún var fyrst aðstoðakennari vorið 2004. Meðfram doktorsnáminu í Osló kenndi Sigríður í fjölda námsskeiða á bachelor og masterstigi. Auk kennslu hafði hún umsjón með námskeiði í OBM (Atferlismiðuð stjórnun) í mastersnáminu við deildina. Síðustu þrjú ár hefur hún einnig haft umsjón með, og kennt, stjórnendanám sérsniðið fyrir þá sem gegna stjórnendastöðu í heilsu- og félagslega geiranum.
Sigríður hefur líka verið virk utan háskólasamfélagsins. Hún vinnur að því að stofna OBM Nordic sem er net atferlisnörda sem vinna með Atferlismiðaða stjórnun á Norðurlöndunum. Hún hefur líka haldið fjölda fyrirlestra um málefnið á ráðstefnum bæði í Noregi, Svíþjóð og að sjálfsögðu í vöggu atferlisfræðarinnar, Bandaríkjunum.
Sigríður hefur verið lektor við Oslo Metropolitanháskóla í Oslo síðustu ár. Í viðbót við það og að reka ráðgjafafyrirtækið R+ má nefna sem starfsreynslu að hún var verkefnastjóri hjá Capacent og síðan hjá Opna háskólanum í HR, á árunum 2006 til 2011.
Sigríður er langt yfir meðallagi sósíal dama og alltaf verið virk í félagslífinu. Hún var til dæmis skemmtanastýra hjá Animu (félagi sálfræðinema) veturinn 2003-2004, skipulagði (ásamt mér, Gesti, og vinkonu okkar) tónleikaröð kórs, poppsveita og þungarokkssveita til styrkar Ljósinu vorið 2007. Eftir að við fluttum til Oslo dró félagsáhugi hennar hana að hinni tignarlegu íþrótt brennibolta og endaði með að hún var í keppnisliði BrennOslo sem tók þátt í Noregsmeistaramóti í brennibolta árið 2012. Svo er hún almennt dugleg við að hóa saman fólki til að gleðjast yfir stóru og smáu. Sigríður er brosmild og góð tveggjabarna móðir sem er alveg einstaklega vel gift mundi ég segja!
Gestur Gunnarsson

Gestur Gunnarsson, sérfræðingur í klínískri sálfræði
Gestur lauk candidats prófi í sálfræði árið 2011. Hann byrjaði að vinna sem sálfræðingur í Noregi sama ár og stundaði síðar sérfræðinám meðfram vinnu. Hann útskrifaðist sem sérfræðingur í klínískri sálfræði árið 2020. Gestur hefur á þessum árum komið að flestu innan klínískrar sálfræði en einnig farið út fyrir klíníska sviðið og unnið sérstaklega með samskipti fólks og að leysa úr erfiðum deilum innan fjölskyldna.
Það er því óhætt að segja að í starfi sínu í Noregi hafi Gestur öðlast mikla og fjölbreyta reynslu í að aðstoða fólk með að bæta samskipti og nýta grunnlögmál hegðunar. Síðustu ár hefur hann unnið mikið við handleiðslu sálfræðinga auk þess að vera beðinn um að sinna ýmsum sérverkefnum. Eins og að sitja í stýrihópum fyrir endurskipulagningu innan Barna- og unglingageðdeildar Kongsvinger sjúkrahúss og innleiðingu nýs meðferðarferlis, (svokallaðs pakkeforløp) fyrir meðferðardeildir fíknisjúkdóma fullorðinna við Akershus háskólasjúkrahúss. Einnig vann hann að því að setja á fót Svæðismiðstöð fyrir kynsegin börn (Regionalt Senter for kjønnsinkongruense – Helse-Sør Øst). Þetta var nokkurskonar þróunarvinna við að byggja upp samvinnu um breitt þverfaglegt úrræði fyrir kynsegin börn og fjölskyldur fyrir Helse-Sør øst en Helse-Sør Øst þjónar rúmlega helming innbúa Noregs.
Gestur er fjölhæfur maður og því til marks vann hann í fimm ár sem múrari áður en hann snéri sér að sálfræðinni. Sú reynsla hefur líka kennt honum hve gjörólík vinnustaðamenning getur verið og hvernig þurfi að taka mið af því í sinni hegðun. Það sem þótti fyndið í vinnuskúrnum með múrurunum þykir ekki alltaf jafn fyndið á kaffistofunni með sálfræðingunum. Þetta veit hann af bituri reynslu!
Það sem Gestur tekur sér fyrir hendur vill hann gera vel og leggur sig allan fram, án þess þó að gleyma glensinu. Hjá skjólstæðingum og samstarfsfélögum í Noregi var hann þekktur sem sá óformlegi sem fór sínar eigin leiðir. Í því samhengi má nefna að hann vílaði ekki fyrir sér að ganga á höndum frá biðstofu inn á skrifstofu ef hann hélt að það gæti brotið ísinn og létt andrúmsloftið fyrir stressaða foreldra og börn.
Gestur er óhræddur við að hugsa út fyrir kassann og sér oft aðrar hliðar á málunum og finnur nýstárlegar lausnir. Hann hefur alltaf verið opinn fyrir nýjungum eins og þegar hann gerði lokaverkefnið Sýndarveruleiki í meðferð við fælni hjá börnum árið 2011. Það sýndi sig hversu framsækið verkefnið var þegar hann vann að lokaverkefni í sérfræðingsnáminu 2022 um Notkun sýndarveruleika í meðferð við fælni hjá börnum: Yfirlit yfir birtar rannsóknir (Bruk av Virtual Reality i behandling av angstlidelser hos barn og ungdom: En oversiktsartikkel). Þá kom það í ljós á skýran hátt að enn var alt of lítið rannsakað á þessu sviði. Nýjir menningarheimar hafa líka heillað hann, en hann byrjaði ungur að ferðast um heiminn. Ekki bara til að fara í frí heldur til að verða hluti af samfélaginu og öðlast skilning á framandi siðum og menningu. Fyrst árið 1996 þegar hann vann með götubörnum í Honduras í eitt ár og síðast þegar hann var messagutti á Karya IV við Tyrklandsstrendur frá febrúar til ágúst árið 2008. Undir tryggri stjórn kapteins Sigríðar Soffíu. Sem má segja að hafi verið byrjunin á okkar búskap.
Sigríður Soffía Sigurjónsdóttir